Aftur í tímann

febrúar 15, 2011

Það er sumar í Ísafjarðardjúpi þegar þessi mynd er tekin. Kannski er hún tekin sumarið 1939 sem var hið sólríkasta á 20. öld. Það getur vel verið. Konan sem er önnur frá hægri í flekknum er móðir mín sem fæddist 1925. Aftastur í röðinni er Páll Pálsson afi minn, bóndi í Þúfum sem ég heiti eftir.
Fjárhúsin sem standa í baksýn eru eins og önnur útihús í íslenskum sveitum þessa tíma, samruni þess gamla og nýja, veggir úr torfi og grjóti líkt og við landnám, timbur kemur við sögu en segja má að bárujárn sé fulltrúi nútímans í þessari byggingu. Ég held að hrúgaldið á hlaðinu fyrir framan húsin sé taðstafli.
Þegar ég man fyrst eftir mér í þessari sveit var enn haft fé í þessum húsum og svo var reyndar fram til 1967 ef ég man rétt. Ég man eftir okkur bræðrum sitjandi á garðabandi við ljósið frá einni olíulukt. Annars er myrkur og eina hljóðið sem heyrist er þéttriðið marr margra kjálka þegar kindurnar háma í sig hey úr jötunni. Við bætist skrjáfið í heyinu þegar þær rífa það til sín með frekjulegum hnykk. Annars þegja kindur á húsi. Þær virðast yfirleitt ekki eiga neitt vanjarmað hver við aðra.
Lyktin af heyinu og lyktin af kindum sem hafa krafsað á beit yfir stuttan daginn renna saman í andrúmslofti sem í minningunni er tryggt og öruggt.

Auglýsingar

Ekki dáinn, bara fluttur

mars 31, 2009

Virðulegu lesendur. Ég hef flutt mig um set yfir á eyjan.is og blogga þar eftirleiðis hérna. Slóðin er semsagt: http://blog.eyjan.is/pallasgeir/

Að vera beinskiptur

mars 30, 2009

Í annars ágætu viðtali við Björn Hlyn Haraldsson leikara í Fréttablaðinu um helgina var geðslagi hans lýst svo að hann væri beinskiptur. Nú veit ég auðvitað ekki hvað skrifarinn vildi sagt hafa en get mér þess til að Björn sé talinn hreinskiptinn. Ef einhver er beinskiptur í lund má kannski spyrja hvað hann sé margra gíra. Mér fannst þetta samt svolítið fyndið.

Í útvarpinu meðan ég skrifa þetta er spakt fólk að tala við Ævar Kjartansson og þar er fremst meðal jafningja Kristrún nokkur Heimisdóttir. Hún sagði rétt áðan að menn væru ekki nógu langsýnir. Hún hefur sjálfsagt ætlað að nefna ástandið sem er andstæða skammsýni og er jafnan kallað framsýni.

Ojæja.

Ég reyni eftir megni að haga máli mínu í ræðu og riti svo ekki fari í bága við almenna málvenju og réttritun. En það tekst ekki alltaf svo eflaust á einhver eftir að tuldra yfir því að hér sé hent aðfinnsluhnullungum úr lítt grjótheldri byggingu úr brotgjörnu efni. Hafa svo hvorir tveggja nokkuð að iðja.

Silfurskeiðin eða fiskgaffallinn?

mars 26, 2009

Það er vel hægt að hafa nokkra samúð með Sjálfstæðismönnum nú þegar þeir efna til landsfundar. Evrópunefnd flokksins sat á rökstólum og rembdist eins og kona með sex í útvíkkun í þrjá mánuði. Nefndin komst að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að við ættum annað hvort að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það hefði skilað sama árangri að hringja af handahófi í nokkur nöfn úr símaskránni og spyrjast fyrir um stefnu flokksins.

Frjálshyggjan, hornsteinn flokksins og guðspjall til margra ára hefur beðið skipbrot og er nú úthrópað sem evangelíum græðgi og glötunar. Daufir Sjálfstæðismenn hnappa sig saman og neyðast til að stappa í sig stálinu eigi alþýðan ekki að ganga af trúnni. Þannig minnir landsfundurinn á kirkjuþing haldið í skugga nýrra sannana um að Guð sé eftir allt saman ekki til. Nú ríður á að sanna í eitt skipti fyrir öll hve margir englar geta dansað á einum nálaroddi og muna að kjósa soninn í stað föðurins í nýja heilaga þrenningu og hvika hvergi frá grundvallartrúnni á hina ósýnilegu hönd. Hún sést ekki. Annars væri hún ekki kölluð hin ósýnilega hönd svo menn eru vinsamlegast beðnir að trúa á hana.

Trúin flytur fjöll en hver flytur fagnaðarerindi nýrra tíma fyrir hnípinn flokk í vanda? Eigum við ekki að veðja á að menn taki silfurskeiðina fram yfir fiskgaffalinn? Tja- þarna er efinn bölvaður veri hann.

Gulrætur handa öllum

mars 24, 2009

Ég sá Lilju Mósesdóttur skýra út „sína aðferð“ við að lækka skuldir heimilanna í Sjónvarpinu í gær. Lilja er skelegg kona og menntaður hagfræðingur svo gera verður ráð fyrir því að hér sé ekki kosningaloforð á ferð heldur raunverulegt framlag til lausnar efnahagsvandans svo notað sé orðfæri stjórnmálamanna.

Fyrst menn eru að deila um leiðir til þess að lækka skuldir heimilanna með opinberri aðgerð þá ríkir trúlega  sátt um að það sé í raun óumflýjanlegt og aðeins eigi eftir að ákveða aðferðina. Menn virðast hafa af því nokkrar áhyggjur hvernig skuli standa að þessu svo sanngirni og réttsýni ráði för. Lilja talaði fyrir sömu upphæð á alla frekar en þeim 20% afskriftum á línuna sem aðrir flokkar og fulltrúar hafa flaggað. Auðvitað er þetta erfitt verkefni því sumir eru í sökkvandi skuldum vegna þess að þeir kunnu ekki fótum sínum forráð í neyslusukki meðan aðrir voru gætnari og þurfa strangt tekið ekki á niðurfellingu að halda sér til björgunar.

Sennilega næst aldrei sátt um neina aðra leið en þá að allir fái sömu upphæð fellda niður. Líklega eiga flokkar og fólk eftir að prútta eitthvað um þetta en freistingin sem felst í þessari kosningagulrót er stærri en svo að nokkur flokkur eða kjósandi standist hana.

Til að halda umræðunni á plani kátínu og alvöruleysis mætti hugsa sér að fella niður skuldir í hlutfalli við líkamsþyngd. Fyrir hvert kíló umfram ætlaða kjörþyngd fengist t.d. 100 þúsund króna niðurfelling. Sé það rétt að fylgni sé milli offitu, fátæktar og hömluleysis myndi sú aðferð gagnast best þeim sem mest þurfa á því að halda. Önnur aðferð væri að láta frávik frá meðalhæð ráða niðurfellingu þannig að þeir hávöxnu fengju minna því kannanir sýna að hávaxnir fá að jafnaði hærri laun en lágvaxnir. Svo mætti hugsa sér einfalt reiknilíkan þar sem þættir á borð við hæð, þyngd , aldur, barnafjölda, fermetra, hestaflafjölda frúarbíls, bókmenntasmekkur og stjórnmálaskoðanir hefðu áhrif á lokaniðurstöðuna.

Höldum áfram að reikna- skipið er ekki alveg sokkið enn.

Vilja húsmæðurnar nýtt kjötfars?

mars 23, 2009

Að fylgjast með prófkjörum er góð skemmtun. Um helgina seig Einar K. Guðfinnsson niður í annað sætið á sínum eigin lista. Hann ber sig vel við fjölmiðla og segir að krafan um endurnýjun sé rík, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins. Skörpustu greinendur hafa tekið eftir því að síðustu ráðherrar flokksins sitja að jafnaði ekki í efstu sætum lista heldur öðru sæti. Nema þeir sem hafa forðað sér á hlaupum með stofnfé í poka á bakinu.

Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn vera í sporum kaupmanns sem hefur grun um að fólkið í hverfinu sé að missa lystina á kjötfarsinu sem hann framleiðir í litlu herbergi bakvið búðina úr rolluslögum af heimaslátruðu sem föðurbróðir hans í sveitinni sendir honum í strigapokum með mjólkurbílnum. Kaupmaðurinn er ekki mjög skarpur og þess vegna færir hann kjötfarsbakkann aftar í kjötborðið og setur fremst nýja gerð af kjötfarsi sem hann hefur fundið upp á að laga úr sama hráefni en nú án litarefnis. Þetta kallar hann nýtt kjötfars og vonar að húsmæðurnar glæpist á því að kaupa það.

En hvað gera húsmæðurnar? Kaupa þær áfram kjötfars eða mumá kannski bjóða þeim rófur og saltfisk? Þetta er svo spennandi að ég er viti mínu fjær.

Menntun Jóhönnu Guðrúnar

mars 20, 2009

Ég sé í blöðunum að Jóhanna Guðrún júróvissjónfari er á námskeiði svo hún geti svarað spurningum erlendra blaðamanna um efnahagsmál á Íslandi.

Ég hef aldrei orðið var við að efnahagsmál væru mikið rædd á þessari alþjóðahátíð samkynhneigðra í Evrópu. Ég minnist þess ekki að menn hefðu áhyggjur af því að Sverrir Stormsker yrði spurður um viðskiptahallann eða Páll Óskar þyrfti að vita hvert stefndi með erlendar skuldir þjóðarinnar.

En ef Jóhanna Guðrún verður spurð út í ákvörðun Seðlabankans um lækkun stýrivaxta hvort á hún þá að segja að lækkunin hafi verið nægjanleg eða of lítil. Hver verður afstaða hennar í deilum Íslands og Bretlands vegna ábyrgðar á Icesave reikningunum? Mun hún telja það skýlaust að Ísland beri ábyrgðina eða mun hún telja grundvöll til málshöfðunar til staðfestingar hinu gagnstæða? Og hvað á barnið að gera ef einhver spyr hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan ESB.

Maður spyr sig.

Óskalistinn

mars 20, 2009

Auðvitað er ástandið voðalegt. Fjárhagur þjóðarinnar rústir einar, engin skjaldborg risin enn og myrkur svart til allra átta.

En mig langar samt til þess að fara út í búð eftir hádegið og kaupa eftirtalda hluti: fjögur prússíkbönd. tvo slinga, tvö pör af broddum og ef til vill tvær nýjar karabínur. Ætti snjóflóðastöng að vera á listanum eða á maður kannski að búa hana til úr gamalli tjaldsúlu af því það er kreppa?

Kanína í bílljósum

mars 19, 2009

Sé sterku ljósi beint snögglega að villtum dýrum er eitthvert viðbragð sem ræður því að þau frjósa. Þau standa og stara lafhrædd og lömuð í geislann og eru þá auðveld bráð veiðimönnum. Mér fannst Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari líta út eins og hrædd kanína í bílljósum í sjónvarpinu í gær.

Sláum strax þann varnagla að þetta er áreiðanlega hinn vænsti maður og ekkert af því sem hér verður sagt beinist gegn honum persónulega (nema kannski samlíkingin við kanínuna). Þetta sérstaka embætti var sett sérstaklega á fót til þess að velta við hverjum steini og varpa ljósi á allt sem saknæmt getur talist í tengslum við bankahrunið, eftirmála þess og aðdraganda.

Fyrir utan að rækja þetta hlutverk af kostgæfni hefur áreiðanlega verið meiningin að embættið efldi trú alþýðunnar á getu stjórnvalda til þess að lögsækja skúrka og útrásarvíkinga. En í staðinn fyrir valdsmannslegan skörung sáu sjónvarpsáhorfendur hikandi og tafsandi mann sem stóð eins og glópur (eða kanína í bílljósum) fyrir framan hálftómar skjalahillur og viðurkenndi umlandi að á þeim mánuði sem embættið hefur starfað hafi innan við tíu menn slæðst þangað í yfirheyrslur. Hvort þetta var þægilegt kaffispjall eða raunverulegar yfirheyrslur veit enginn. Þar fyrir utan er þetta ágæta embætti ekki að gera neitt. Það er ekki að rannsaka nein sérstök mál og hefur enga rannsókn hafið að eigin frumkvæði.

Bíddu aðeins. Eigið frumkvæði embættisins er semsagt ekki neitt. Það aðhefst ekki neitt nema kannski að hringja í menn og kalla á þá í kaffi ef einhver stjakar sérstaklega við starfsmönnum þess.

Ég hlýt náttúrulega að spyrja eins og afgangurinn af þjóðinni: Hvern andskotann er þessi sveitasýslumaður eiginlega að þvælast upp á dekk?

Hingað kom um daginn kona sem heitir Eva Joly. Hún lítur ekki út eins og kanína í bílljósum heldur eins og temmilega strangur húsmæðraskólakennari. Hún hvatti sérstaklega til frumkvæðis, áræðis, húsleita og talsverðrar hörku við rannsókn fjárglæfra eins og þeirra sem Ólafur Þór á að skoða. Ég held að kallinn  hefði átt að bjóða henni í kaffi og reyna að læra eitthvað í staðinn fyrir að sitja með hendur í skauti við skjalaskápinn og bíða eftir því að sakbitnir hvítflibbaglæpamenn gangi inn af götunni af sjálfsdáðum.

Björgvin og Gróa

mars 18, 2009

Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra er ekki ánægður. Vondir menn bera róg um hann um bæinn. Þeir pískra og hvískra um niðurfellingu skulda og óeðlilega fyrirgreiðslu. Björgvin er ekki ánægður því hann tefldi djarft, fórnaði ráðherrastól og veðjaði á skammt minni kjósenda. Teningarnir féllu honum í vil og öruggur stóll kom upp úr kjörkössunum í prófkjörinu. Allt ætti því að vera gott en er það ekki því hinar þrálátu raddir þagna ekki og nú stígur Björgvin ábúðarmikill eins og hreppstjóri fram í sviðsljósið og segist ekki hafa tekið þátt í stjórnmálum til að sitja undir slúðri um sig og sína. Dimmri röddu rekur hann sakleysi sitt og sýnir hreinan skjöld. Rannsóknir sýna að fólk tekur meira mark á djúpri rödd en skærri. Bassar úr Gnúpverjahreppi eru betri en illir tenórar brennimerktir frjálshyggju og hægri hryðjuverkum.

Hreinn skjöldur er eftirsótt eign og sjálfsagt rétt að trúa sveitastráknum frá Skarði svo hann fari ekki heim í sína sveit í fússi. Pedantar sem telja að allur sannleikur felist í textanum gætu rekið augun í orðalag piltsins þegar hann segist aldrei hafa fjárfest í hagnaðarskyni. Þýðir þetta að hann hafi tapað peningum? Lagði hann vísvitandi fé í eitthvað sem hann vissi að var glatað? Er þetta heimspekilega grundað orðalag sem á að sýna hreint hjarta Björgvins og barnslega trú hans á vonlitlar forretningar eða er þetta clintonskur tungufótaskortur og ný túlkun á fortíðinni. Æ þarna er efinn bölvaður veri hann alla tíð.